Flokkar háðir frumflutningi eða útgáfu
Grunnreglur
Gjaldgengir eru þeir höfundar og/eða flytjendur sem eru íslenskir ríkisborgarar eða hafa verið með lögheimili á Íslandi á tímabilinu.Ef um fleiri höfunda og/eða flytjendur eru að ræða (t.d. í hljómsveit) eiga a.m.k. 50% þeirra að uppfylla skilyrðið um ríkisborgararétt og/eða lögheimili á Íslandi.Verk eru gjaldgeng séu þau frumflutt eða frumútgefin á Íslandi á tímabilinu 1 jan. til 31 des. 2016.
Lag/Tónverk ársins
Gjaldgeng eru þau verk eftir íslenska höfunda eða höfunda sem búa og starfa á Íslandi sem frumflutt/eða frumútgefin voru á Íslandi á tímabilinu og lögð eru fram til dómnefndar af útgefanda. Útgefanda er í sjálfs vald sett hvort hann kýs að miða við frumflutning eða frumútgáfu verks en óheimilt er að leggja verk fram aftur ef það hefur áður verið lagt fram á öðru undangengnu tímabili. Komi upp sú staða að verk hafi verið frumútgefið á einu ári en notið vinsælda eða vakið athygli á tímabilinu sem ÍTV miðar við hverju sinni er heimilt að leggja það fram sem verk ársins. Skal dómnefnd þá túlka aðstæður þröngt, meta gjaldgengi verksins og rökstyðja niðurstöðu komi til tilnefningar, þó gildir sú takmörkun sem áður er getið um framlögun verks á öðru undangengnu tímabili. Útgefanda er einungis heimilt að leggja hvert verk fram í einum tilnefningaflokki. Til að mynda einungis í Lag ársins (popp) og þá ekki í Lag ársins (rokk) eða í Tónverk ársins (Djass/Blús). Tilnefna skal verk en höfundur/ar skal veita verðlaunum viðtöku.
Hljómplata ársins
Gjaldgengar eru hljómplötur íslenskra flytjenda og þeirra flytjenda er búa og starfa á Íslandi sem lagðar eru fram til dómnefndar og voru frumútgefnar á tímabilinu. Gjaldgengi hljómplötu er óháð því hvort hún innihaldi frumflutning verka eða áður útgefin verk en skilyrði er að minnsta kosti 80% hljóðritanna á hljómplötunni hafi ekki verið gefin út áður, á öðru tímabili. Útgefanda er einungis heimilt að leggja hverja hljómplötu fram í einum tilnefningaflokki. Til að mynda einungis í Hljómplata ársins (popp) og þá ekki í Hljómplata ársins (rokk).
Í tilnefningarflokkinum Popp, rokk og önnur tónlist er veitt verðlaun fyrir plötu ársins í eftirtöldum flokkum: Poppplata ársins, Rokkplata ársins, Raftónlistarplata ársins, Hip hop/Rappplata ársins, Þjóðlagatónlistarplata ársins og Leikhús/kvikmyndatónlistarplata ársins (tónlist sem flutt hefur verið í kvikmynd eða í leikhúsi og gefin hefur verið út). Verðlaunaflokkar eru háðir þeim takmörkunum að nægilega margar frambærilegar tilnefningar berist í tiltekna flokka. Ef flokkur nær ekki nægilega mörgum innsendingum sameinast innsend verk öðrum flokkum samkvæmt faglegu mati dómnefndar og stjórnar Íslensku tónlistarverðlaunanna.
Þeir sem ábyrgir eru fyrir skráningum verka sem færast milli flokka fá upplýsingar þess eðlis. Tilnefna má hljómplötu í flokkinum Plata ársins sem inniheldur annaðhvort 4 ný lög eða fleiri, eða að lágmarki 16 mínútur af nýrri tónlist. Ekki skiptir máli hvort hljóðrit sé gefið út stafrænt eða á föstu formi, en hljóðritið þarf að vera gefið út á árinu sem er að líða og vera aðgengilegt almenningi. Aðalflytjandi hljómplötunnar skal veita verðlaunum viðtöku.
Textahöfundur ársins
Gjaldgengir eru allir textahöfundar sem vöktu athygli á árinu fyrir frumflutning og/eða frumútgáfu verks eða verka á íslensku. Tilnefna skal fyrir áberandi framlag við ákveðið verkefni, svo sem fyrir texta á ákveðinni hljómplötu eða lifandi flutning.
Önnur tónlist
Önnur tónlist er flokkur sem inniheldur plötur ársins í Opnum flokki en þar er að finna þá tónlist sem er oft erfitt að flokka og fellur ekki beint undir aðra flokka. Önnur tónlist inniheldur líka plötur ársins í þjóðlaga- og heimstónlist, og kvikmynda- og leikhústónlist.
Upptökustjórn ársins
Upptökustjórn ársins eru verðlaun veitt fyrir bestu hljóðmynd á hljómplötu. Hljóðmynd samanstendur af listrænni framsetningu efnis, hljómi og skýru tónmáli sem hæfir efninu.
Eftirfarandi aðilar sem koma að upptökum og gerð hljóðrits geta verið tilnefndir á innsendingu: Listamaður, listrænn stjórnandi (producer), hljóðtæknir sem sá um hljóðblöndun, hljóðtæknir sem sá um hljóðjöfnun og upptökustjóri. Við verðlaunum taka þeir sem tilnefndir eru á skráningu.