17. mar. 2022

Damon Albarn hlýtur sína fyrstu tilnefningu, Tumi Árnason, FLOTT, Birnir og Supersport! með flestar

Tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna voru tilkynntar í dag á veitingastaðnum Hnossi á jarðhæð Hörpu

Tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna voru tilkynntar í dag á veitingastaðnum Hnossi á jarðhæð Hörpu. Tónlistarárið 2021 var uppfullt af spennandi viðburðum, þrátt fyrir hamlandi viðburðahald mestan part ársins, útgáfa í öllum flokkum tónlistar var í sérlegum blóma og gróskan kraumandi undir niðri. Allt þetta má glöggt sjá á tilnefningunum, sem eru afar fjölbreyttar í ár og breiddin mjög mikil.

Athygli vakti fjöldi tilnefninga, hversu útgáfa var fjölbreytt og verkefnin mýmörg í sígildri og samtímatónlist sem og í djasstónlist. Það rímar einnig við þá flóðbylgju ungs og efnilegs tónlistarfólks sem er við það að springa út í sínum verkefnum.

Að tilnefningum ársins – og nýliðum, þá vekur það sérstaka athygli að Íslendingurinn Damon Albarn (Blur, Gorillaz og fl.) hlýtur sína fyrstu tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Það eru fjölmargt listafólk sem hlýtur fleiri en eina tilnefningu en djasstónlistarmaðurinn Tumi Árnason hlýtur þær flestar í ár, alls sex talsins. Hljómsveitin FLOTT, rapparinn Birnir og rokksveitin Supersport! hljóta fjórar tilnefningar og meðal þeirra sem hlutu þrjár eru meðal annars þau Herdís Anna Jónasdóttir og Víkingur Heiðar Ólafsson.

Íslensku tónlistarverðlaunin verða veitt í Silfurbergi, Hörpu, miðvikudaginn 30. mars í vbeinni útsendingu á RÚV. Kynnar á verðlaunahátíðinni verða leikarinn og sjónvarpsgrínarinn Guðmundur Felixson og leik- og söngkonan Valgerður Guðnadóttir.