01. mar. 2022
FLOTT, Birnir, Mono town, Anna Gréta og Bríet sigursæl á íslensku tónlistarverðlaununum 2022
Hljómsveitirnar FLOTT og Mono Town, rapparinn Birnir og tónlistarkonurnar Bríet og Anna Gréta Sigurðardóttir fengu öll tvenn verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum sem veitt voru í Hörpu á miðvikudagskvöld, fyrir hið gjöfula tónlistarár 2021. Verðlaunastytturnar dreifðust annars vítt yfir sviðið og endurspeglar það hversu mikilli breidd íslenska tónlistarflóran býr yfir.
Íslensku tónlistarverðlaunin voru afhent í Silfurbergi, Hörpu og var hátíðin í beinni útsendingu á RÚV. Segja má að verðlaunahátíðin sé fyrsta stóra „partíið“ eftir erfiða mánuði heimsfaraldurs en Íslensku tónlistarverðlaunin 2020 voru haldin um miðjan mars það ár og voru síðasta partíið áður en öllu var nær lokað og læst. Í fyrra var hátíðin svo haldin án áhorfenda í sal. Mikið var um dýrðir í Hörpu þar sem veislustjórarnir Valgerður Guðnadóttir, söng- og leikkona ásamt Guðmundi Felixsyni grínara tóku á móti gestum, fóru á kostum í leik og söng og afhentu sigurvegurum kvöldsins verðlaunastyttuna góðu, Ístóninn eftir Ingu Elínu, hönnuð. Hljómsveitirnar BSÍ og FLOTT stigu á stokk, sem og Magnús Jóhann, rapparinn Birnir og félagar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands. Lilja Alfreðsdóttir ráðherra menningar- og viðskipta afhenti heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna og var það píanóleikarinn Anna Guðný Guðmundsdóttir sem er heiðursverðlaunahafi ársins.
Anna Guðný hlaut verðskulduð heiðursverðlaun
Anna Guðný Guðmundsdóttir á glæstan feril að baki, lagði á sínum tíma sérstaka áherslu á kammermúsík og meðleik með söng og þar hófst farsælt samstarf hennar og söngkonunnar Sigrúnar Hjálmtýsdóttur, Diddú. Um langt árabil hefur Anna Guðný sinnt kennslustörfum, var píanókennari við Tónlistarskólann í Reykjavík og einnig við Menntaskólann í tónlist. Hún hefur starfað sem píanóleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands um árabil og er enn. Anna Guðný hefur víða komið fram á sínum glæsta ferli, spilað inn á um 30 hljómplötur með mörgu fremsta listafólki þjóðarinnar auk þess að gefa út rómaðar einleiksplötur. Anna Guðný er og hefur verið mikilvægur og sterkur hlekkur í íslensku tónlistarlífi í fjóra áratugi – Anna er handhafi heiðursverðlauna Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2022. Félagar í Sinfóníuhljómsveit Íslands heiðruðu heiðursverðlaunahafann með flutningi á köflum úr Holberg-svítu Edvards Grieg.
Bjart yfir íslenskri tónlsit
Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson afhenti björtustu vonum íslenskrar tónlistarflóru sín verðlaunin hverju. Bjartasta vonin í djasstónlist er gítarleikarinn Hróðmar Sigurðsson, bjartasta vonin í sígildri og samtímatónlist er fiðuleikarinn Rannveig Marta Sarc og í popp, rokk, rapp/hipphopp og raftónlist var valin hljómsveitin FLOTT sem bjartasta vonin í samvinnu við hlustendur Rásar 2. Eins og áður segir var breiddin mikil á verðlaunahátíð ársins og mörg kunnugleg andlit og nöfn sem birtust á skjánum – í bland við vonarstjörnur íslensks tónlistarlífs. Meðal vinningshafa voru þau John Grant og Herdís Anna Jónasdóttir sem verðlaunuð voru fyrir söng ársins, Teitur Magnússon fékk verðlaunin fyrir textagerð, píanóleikarinn Víkingur Heiðar Ólafsson og trommarinn Magnús Trygvason Eliassen voru meðal flytjenda ársins og tónlistarkonurnar Emiliana Torrini og Markéta Irglová voru verðlaunaðar fyrir tónverk ársins sem var titillagið úr sýningu Þjóðleikhússins, Vertu úlfur.
Íslensku tónlistarverðlaunin eru uppskeruhátíð íslensks tónlistarfólks og eru haldin af aðildarfélögum íslenskrar tónlistar, STEF og SFH og eru verðlaunin liður í því að hampa þeirri breidd sem íslensk tónlist býr yfir og um leið að styrkja stöðu höfunda, flytjenda, framleiðenda og annarra rétthafa. Það er því gleðilegt að þessi vettvangur sé til, þar sem allt fremsta tónlistarfólks landsins í öllum tegundum tónlistar er komið undir sama þak til að fagna kollegum og aðstandendum tónlistarverkefna.
Hér fyrir neðan má sjá upplýsingar um verðlaunahafa ársins í öllum flokkum. Við óskum verðlaunahöfum sem og öllum þeim sem voru tilnefnd – innilega til hamingju!