Steinar Berg Ísleifsson
Heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2025

Steinar Berg Ísleifsson fæddist í Keflavík 21. júlí 1952, sonur Ísleifs Runólfssonar frá Kornsá í Vatnsdal í Austur Húnavatnssýslu og Ólafar Sigríðar Guðbergsdóttur frá Reykjavík. Steinar lauk verslunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1971 og var verslunarstjóri hljómdeildar Faco frá 1971 til 75. Sumarið 1975 gaf Steinar út hljómplötuna Sumar á Sýrlandi með Stuðmönnum og stofnaði nokkru seinna Hljómplötuútgáfuna Steina h.f. með félögum sínum. Steinar var framkvæmdastjóri og aðaleigandi þess fyrirtækis til 1993. Hann var framkvæmdastjóri hljómplötuútgáfunnar Spors frá 1993 til 1998 og tónlistardeildar Skífunnar og Norðurljósa frá frá 1998 til 2001.
Í kjölfar fyrstu stóru plötu Stuðmanna bættust við Spilverk þjóðanna, Þokkabót, Ljósin í bænum, Þú og ég, HLH flokkurinn, Laddi, Start, Jóhann Helgason, Eiríkur Hauksson, Mezzoforte, Bubbi Morthens og hljómsveitirnar Utangarðsmenn, Egó og GCD, Greifarnir, Todmobile, Nýdönsk, Sálin hans Jóns míns, Bjartmar Guðlaugsson, Stjórnin, Jet Black Joe, Maus, Bang Gang og margar hljómsveitir og listamenn til viðbótar. Steinar var brautryðjandi í að koma íslenskri tónlist á framfæri erlendis þegar hann stofnaði Steinar Records Limited í Bretlandi. Með þrotlausri vinnu og tröllatrú á íslenskri tónlist tókst að koma laginu Garden Party með Mezzoforte í 17. sæti breska vinsældarlistans snemma árs 1983.
Steinar flutti til Bretlands ásamt fjölskyldu sinni og meðlimum Mezzoforte til að byggja frekar undir útrás íslensks tónlistarfólks á þessum mikilvæga markaði. Steinar hélt starfsemi fyrirtækisins áfram næstu árin í Bretlandi og náði undraverðum árangri. Þetta brautryðjendastarf átti stóran þátt í að marka brautina og opna á þann möguleika að íslenskt tónlistarfólk gæti haslað sér völl utan landsteinanna. Steinar rak hljómplötuverslanir Karnabæjar um árabil, tók þátt í myndbandabyltingunni, gaf út myndbönd og rak myndbandaleigurnar Músík og myndir. Fyrirtæki hans stóð jafnframt að rekstri hljóðvers sem hét Grjótnáman, svo fátt eitt sé nefnt.
Fyrirtæki Steinars keypti útgáfuréttindi SG hljómplatna, Íslenskra tóna, Fálkans, Tónaútgáfunnar og fleiri íslenskra útgáfufyrirtækja, þegar geisladiskavæðingin var að hefjast. Í framhaldinu var hafist handa við að endurútgefa eldri hljómplötur á geisladiskum. Þetta leiddi til þess að margar af helstu perlum íslenskrar dægurtónlistarsögu urðu aðgengilegar á nýjan leik eftir að hafa verið ófáanlegar um árabil. Fyrir nokkru söðlaði Steinar um og gerðist ferðaþjónustubóndi á Fossatúni í Borgarfirði. Steinar stofnaði um líkt leyti útgáfuna Steinsnar, sem hann starfrækti í nokkur ár. Og það má geta þess að árið 2004 átti Steinsnar tvær mest seldu plötur ársins.
Steinar var afkastamikill hljómplötu útgefandi og vakandi í leit sinni að ungu og efnilegu tónlistarfólki sem hann tók upp á sína arma. Fyrirtæki hans gaf út hljómplötur með listafólki og hljómsveitum sem áttu eftir að setja mark sitt á íslenskt dægurtónlistarlíf. Steinar var um tíma stjórnarformaður Sambands hljómplötuframleiðenda og formaður Samtaka myndbandaframleiðenda og kom að réttindamálum útgefenda og tónlistarflytjenda.
Steinar er kvæntur Ingibjörgu Pálsdóttur og eiga þau þrjú börn.
Steinar Berg Ísleifsson er heiðursverðlaunahafi íslensku tónlistarverðlaunanna 2025.
Ég læddist bara út en ákvað að láta ekki slá mig út af laginu, hér var verk að vinna og bil að brúa. Verðlaunin eru því staðfesting þess að tekið var eftir þessari vinnu sem í hönd fór og hún metin. Ég er þakklátur fyrir það.
Steinar Berg Ísleifsson, í þakkarræðu 12. mars 2025