20. des. 2024
Jón Nordal heiðursverðlaunahafi
Heiðursverðlaun íslensku tónlistarverðlaunanna 2010
Jón Nordal var afkastamikið tónskáld og lagði mikið af mörkum til að stuðla að nýsköpun í tónlist. Mörg laga hans eiga sérstakan sess hjá þjóðinni, til að mynda „Hvert örstutt spor“ úr Silfurtungli Halldórs Laxness. Þar að auki samdi hann „Smávinir fagrir“ við Hulduljóð Jónasar Hallgrímssonar aðeins fjórtán ára gamall.
Jón var sæmdur stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og riddarakrossi Dannebrogsorðunnar. Jón hlaut einnig heiðursnafnbót Íslensku tónlistarverðlaunanna 2010 auk fleiri viðurkenninga á löngum og farsælum ferli.
Þetta er sólskinsdagur fyrir gamlan mann.
Jón Nordal
Verðlaunahátíðin 2010
Jón Nordal tekur við heiðursverðlaununum í Gamla bíói úr höndum menntamálaráðherra Katrínar Jakobsdóttur.
Jón var skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík í 33 ár eða frá árinu 1959 til 1992. Hann var í stjórn STEFs frá 1968 til 1987, stjórnarmaður í Tónmenntasjóði kirkjunnar um árabil og í stjórn Tónskáldasjóðs Ríkisútvarpsins í nær hálfa öld til ársins 2017. Þá var hann einn stofnenda Musica Nova, félagsskapar um flutning nútímatónlistar á Íslandi, og fyrsti formaður þess.
Jón sat einnig í ýmsum opinberum nefndum og var stjórnarmaður í tónlistarsamstarfsnefnd Norðurlanda og tónlistarháskólaráði Norðurlanda.
Jón Nordal fæddist á æskuheimili sínu á Baldursgötu 33 í Reykjavík 6. mars 1926. Foreldrar hans voru Ólöf Nordal og Sigurður Nordal prófessor. Jón lést 5. desember 2024, á 99. aldursári
Tónskáldið Jón Nordal markaði djúp spor í íslenska tónlistarsögu en hann er nú látinn á 99. aldursári. Jón var miðlægur í tónlistarlífi landsmanna um árabil, eitt ástsælasta tónskáld þjóðarinnar en líka mikilvirkur í uppbyggingarstarfi tónlistarlífsins sem skólastjóri og baráttumaður fyrir réttindum tónlistarmanna. Eftir hann liggja jafnt tónlistarperlur sem hvert mannsbarn þekkir og ágengari tilraunamennska sem fyllilega var í takt við þá strauma og stefnur sem hæst stóðu eftir námsár hans í evrópsku tónlistarlífi upp úr miðri síðustu öld.
Frá Sinfóníuhljómsveit Íslands