23. mar. 2023

Til hamingju með íslensku tónlistarverðlaunin!

Íslensku tónlistarverðlaunin fóru fram í Silfurbergi Hörpu í gærkvöld. Þar var mikið um dýrðir eins og vera ber, tónlistin vitaskuld í aðalhlutverki en verðlaunað var í 20 flokkum auk þess sem heiðursverðlaun voru veitt og bjartasta vonin í íslensku tónlistarlífi heiðruð.

Trygg veislustjórn kvöldsins var í höndum þeirra Selmu Björnsdóttur söng- og leikkonu og rapparans og leikaranemans Króla og fórst þeim verkið vel úr hendi. Þau sem koma fram á þessari glæstu hátíð tónlistarfólks voru Una Torfadóttir, Jónas Ásgeir Ásgeirsson, Stórsveit Reykjavíkur, Friðrik Dór, russian.girls og Hildigunnur Einarsdóttir mezzosópran. Þar að auki fluttu fjórir kátir söngfuglar heiðursverðlaunahafanum til heiðurs eitt af hans lögum í afar eftirminnilegri útfærslu í miðju salarins við undirleik Pálma Sigurhjartarsonar. Það voru þær Selma Björnsdóttir, Dísella Lárusdóttir, Marína Ósk og Rebekka Blöndal sem sungu lagið Einskonar ást.

Magnús Kjartansson hlýtur Heiðursverðlaunin 2023

Heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna hlaut Magnús Kjartansson. Magnús er einn afkastamesti tónlistarmaður landsins og hefur komið að nær öllum hliðum listarinnar í gegnum sinn feril. Hann stofnaði hljómsveitina Júdas með Finnboga bróður sínum og gekk síðar í Trúbrot árið 1970. Meðal hljómsveita sem Magnús hefur einnig starfað með má nefna Brunaliðið, Hauka, Brimkló, Hljómsveit Björgvins Halldórssonar, Hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar, Sléttuúlfana og Axel O og Co.

Magnús hefur verið einn afkastamesti hljóðvers tónlistarmaður landsins, stjórnað upptökum og útsett og samið tónlist fyrir eigin hljómsveitir og aðra flytjendur. Hann hefur starfrækt eigið hljóðver, stjórnað kórum, samið þekkt lög, auglýsingastef og tónlist fyrir sjónvarpsþætti og kvikmyndir. Magnús hefur komið að vinnslu fjölmargra hljómplatna, þar á meðal eru sólóplötur Vilhjálms Vilhjálmssonar og margra annarra.

Ragnheiður Ingunn er bjartasta vonin

Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir er 22 ára söngkona og hljómsveitarstjóri. Hún stundar nú meistaranám í söng við Konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi og jafnframt því nám í hljómsveitarstjórn við Malko-akademíuna í Kaupmannahöfn. Þrátt fyrir annir í námi hefur Ragnheiður verið áberandi í íslensku tónlistarlífi, skemmst að minnast glæsilegra tónleika á Óperudögum þar sem hún stjórnaði eigin hljómsveit en var jafnframt í einsöngshlutverkinu og frumflutti þar m.a. þrjú ný tónverk sem samin voru sérstaklega fyrir hana.

Hún hefur komið víða fram sem söngkona á undanförnum mánuðum, síðast sem einsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Unga fólksins. Ragnheiður var einn af sigurvegurum Ungra einleikara 2022 og mun hún koma fram á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í maí næstkomandi. Ragnheiður Ingunn er Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2023.

Upplýsingar um alla verðlaunahafa má finna hér fyrir neðan og við óskum öllu því góða fólki sem hlaut tilnefningar, verðlaun og áttu framlög til íslensks tónlistarlífs á árinu 2022 til hamingju!

Akademía fjögurra dómnefnda Íslensku tónlistarverðlaunanna samanstóð af 26 einstaklingum sem eiga það sameiginlegt að hafa fjallað um tónlist, flutt hana eða samið á undanförnum árum. Í nefndunum sitja 13 konur og 13 karlar, 2 formannanna eru karlar og 2 konur.

Íslensku tónlistarverðlaunin 2023 – verðlaunahafar

Flytjendur ársins

Djasstónlist
Stórsveit Reykjavíkur

Sígild og samtímatónlist
Jónas Ásgeir Ásgeirsson

Popp-, rokk-, hipp hopp- og raftónlist
Guðlaug Sóley Höskuldsdóttir

Önnur tónlist
Magnús Jóhann

Söngur ársins

Djasstónlist
Rebekka Blöndal

Popp-, rokk-, hipp hopp- og raftónlist
Una Torfadóttir

Sígild og samtímatónlist
Hildigunnur Einarsdóttir

Lög og tónverk ársins

Djasstónlist
The Moon and the Sky
Höfundur: Marína Ósk

Sígild og samtímatónlist
Guðspjall Maríu (The Gospel of Mary)
Höfundur: Hugi Guðmundsson
Texti: Niels Brunse og Nila Parly

Popp-, rokk-, hipp hopp- og raftónlist
Bleikur og blár – Friðrik Dór
Lag og texti: Friðrik Dór Jónsson og Pálmi Ragnar Ásgeirsson

Önnur tónlist
the world is between us
Lag og texti: Árný Margrét

Plötur ársins

Sígild og samtímatónlist
Fikta – Jónas Ásgeir Ásgeirsson

Kvikmynda- og leikhústónlist
The Essex Serpent – Herdís Stefánsdóttir og Dustin O’Halloran

Djasstónlist
Another Time – ASA Trio + Jóel Pálsson

Popp-, rokk-, hipp hopp- og raftónlist
Ungfrú Ísland – Kvikindi

Önnur tónlist
Fossora – Björk

Upptökustjórn ársins

Fossora – Björk
Upptökustjórn: Björk Guðmundsdóttir

Tónlistarmyndband ársins

Drift – Daniel Wohl
Leikstjórn: Máni M. Sigfússon

Tónlistarviðburður ársins

ErkiTíð 2022

Plötuumslag ársins

Owls – Magnús Jóhann
Hönnun: Viktor Weisshappel Vilhjálmsson

Bjartasta vonin

Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir

Heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2023

Magnús Jón Kjartansson