09. mar. 2023
Tilnefningar tilkynntar í dag
Í dag kemur það í ljós hvaða tónlistarverkefni, einstaklingar og hópar það verða sem hljóta tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna í ár.
Dómnefndirnar hafa unnið baki brotnu síðustu mánuði við að hlusta, vega og meta allar þær innsendingar sem bárust en nefndirnar eru fjórar og innihalda hátt í 30 manns. Þær eru samansettar af fólki af öllum kynjum og ýmsum aldri sem hefur það sammerkt að hafa samið tónlist, flutt hana eða fjallað um að einhverju leyti síðustu misseri.
Það er vitaskuld ærið verkefni að velja á milli allrar þeirrar tónlistar sem sköpuð var á árinu 2022 en innsendingar voru tæplega áttahundruð. Góð vísa er jú sjaldnast of oft kveðin en þegar rætt er um íslenskt tónlistarlíf þá er oft talað um grósku og sköpunarorku. Hún er sannarlega til staðar og er á við nokkrar virkjanir.
Tilnefningar til verðlaunanna verða tilkynntar á veitingastaðnum Hnossi í Hörpu kl. 16 í dag, þar verður boðið upp á léttar veitingar og ljúfa tóna frá hljómsveitinni Lón en viðburðurinn verður einnig í streymi frá Facebook-síðu verðlaunanna.
FIMMTUDAGUR 9. MARS
HNOSS, 1. HÆÐ Í HÖRPU
KL. 16.